Erlent

Serbar ekki sekir

Serbneska ríkið ber ekki beina ábyrgð á þjóðarmorðum í Bosníustríðinu. Þetta er niðurstaða Alþjóðadómstóls Sameinuðu þjóðanna sem þó úrskurðaði að Serbía hefði brugðist skyldum sínum, samkvæmt alþjóðalögum, með því að koma ekki í veg fyrir þjóðarmorðin í Srebrenica fyrir tæpum 12 árum.

Í júlí 1995 voru um 8.000 bosnískir múslimar myrtir í Srebrenica. Hundrað þúsund manns féllu í átökum Bosníustríðsins frá 1992 til 1995.

Dómurinn í dag er sögulegur því ekki hefur fyrr verið úrskurðað um ábyrgð ríkis á þjóðarmorðum. Samkvæmt honum bar serbneska ríkið ekki beina ábyrgð á þjóðarmorðum í stríðinu. Ráðamönnum hafi þó mátt vera ljós hættan í Srebrenica en ekki gripið til aðgerða. Þar með hafi þeir brotið gegn alþjóðlegum skuldbindingum. Dómurinn hafnaði bótakröfu Bosníumanna. Krafist var framsals Bosníu-Serbanna Ratkos Mladic og Radovans Karadic sem eru eftirlýstir fyrir stríðsglæpi.

Serbar segja úrskurðinn í dag byggja á staðreyndum málsins en Boris Tadic, forseti Serbíu, hvetur þing landsins til að fordæma morðin í Srebrenica. Ættingjar fórnarlambanna eru æfir vegna dómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×