Innlent

Samkeppnin grimm milli banka

Samkeppni milli íslensku bankanna er grimm og hörð, segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis. Forstjóri Kaupþings á Íslandi fullyrðir að kjör viðskiptavina hér séu betri en í Svíþjóð þrátt fyrir sláandi mun sem birtist í samanburði á vöxtum og þjónustugjöldum sem Stöð 2 birti um helgina.

Fréttastofan gerði samanburð á kjörum Glitnis og Kaupþings á Íslandi og Norðurlöndunum og birti um helgina. Í ljós kom sláandi munur á vöxtum og þjónustugjöldum. Raunvextir voru allt að helmingi lægri á húsnæðislánum, skammtímalánum og yfirdrætti og munurinn á kostnaði við að taka lán var allt að tuttugufaldur.

Forstjórar bankanna segja háa stýrivexti hér meginskýringuna á þessum muni. Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis bendir á að stýrivextir í Noregi séu 3,75% en 14,25% á Íslandi. "Við teljum okkur vera að bjóða mjög samkeppnishæf kjör á báðum mörkuðum. Það er að sjálfsögðu alltaf hægt að gera betur og að því er stöðugt unnið."

Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings bendir líka á stýrivextina. En þeir skýra varla allt að tuttugufaldan mun á kostnaði við að taka lán Kaupþings hér og í Svíþjóð? "Það skýrir það ekki nema að hluta. En þegar þessi kjör eru borin saman þá kemur í ljós að álagning á vextina er töluvert hærri í Svíþjóð á móti lægri lántökugjöldum á meðan við erum með litla sem enga álagningu á íbúðalánum hér. Þegar allt er talið þá get ég fullyrt það að kjörin þegar horft er á álagningu bankanna eru betri á Íslandi en í Svíþjóð."

Álagningin á húsnæðislán er svo lítil, segir Ingólfur, að þau liggja mjög nálægt grunnvöxtum ríkissjóðs.

Forstjóri Glitnis segir þó tækifæri til að gera betur. "Þessi atriði eru til sífelldrar endurskoðunar þannig að ég er ekki með neinar yfirlýsingar um neinar verðskrárbreytingar hér."

Aðspurður hvernig hann myndi lýsa samkeppni milli bankanna hér, segir Bjarni: "hún er grimm og hörð."

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×