Tólf ára stúlka hefur valdið miklu fjaðrafoki í Ástralíu en hún hefur verið valin andlit tískuvikunnar þar í landi. John Howard, forsætisráðherra Ástralíu, líkar það illa og hefur ekki legið á skoðun sinni.
Margir Ástralar eru honum hjartanlega sammála og segja stúlkuna allt of unga í þetta hlutverk, verið sé að misnota hana. Barnaverndaryfirvöld eru ævareið og krefjast þess að aldurstakmark verði sett á allt sem tengist tískusýningum í landinu.
Aðstandendur tískuvikunnar og móðir stúlkunnar eru ósammála þessu og hafa varið valið á henni. Aldur komi málinu ekkert við. Auk þess sitji stúlkan aðeins fyrir á myndum, hún taki ekki þátt í tískusýningum.