Innlent

Ekki skýr ákvæði um bann við að pissa úti á götu

Í lögreglusamþykkt borgarinnar er ekki tekið sérstaklega fram að bannað sé að kasta af sér vatni úti á götu en margir hafa verið sektaðir fyrir það undanfarnar tvær helgar í miðborginni. Tuttugu og fjórir voru handteknir í nótt fyrir að haga sér illa - flestir fyrir að pissa úti á götu. Alls hafa þrjátíu og átta verið handteknir í miðborginni um helgina fyrir slík minniháttar brot.

Fólkið sem var handtekið í nótt var tekið fyrir brot á lögreglusamþykkt en eins og kunnugt er hefur lögregla tekið harðar á slíkum brotum síðustu tvær helgar þar sem eftirlit hefur verið hert. Fólkið er allt sekt um svokölluð hátternisbrot og í flestum tilvikum var það fyrir að kasta af sér vatni á götum úti í miðbænum. Helmingur þeirra sem teknir voru í nótt gekkst við brotum sínum en eftir á að ræða við hinn helminginn um framhaldið. Tíu þúsund króna sekt liggur við að pissa úti á götu gangist menn strax við brotinu. Mikill mannfjöldi var í bænum að sögn lögreglu og töluverður erill en engin stórmál komu upp.

Lögreglusamþykktir gilda í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg er því samin og samþykkt í borgarstjórn. Sú sem nú gildir er þriggja ára gömul og í henni er ekki tekið sérstaklega fram að bannað sé að sinna kalli náttúrunnar úti á götu. Það sem helst gæti átt við um þá athöfn er í áttundu grein en þar segir að öllum beri að gæta þess að ganga vel um á almannafæri og valda þar ekki óþrifum. Nema brotið sé á þriðju grein þar sem vísað er til þess að ekki megi sýna af sér ósæmilega háttsemi eða háttsemi sem raski allsherjarreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×