Viðskipti erlent

Hráolíuverð lækkar lítillega

Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkaði lítillega á helstu fjármálamörkuðum í dag eftir nokkrar hækkanir í gær og fór niður í rúma 56 bandaríkjadali á tunnu. Orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna birtir vikulega skýrslu um olíubirgðir landsins í dag. Greinendur gera ráð fyrir að olíubirgðir hafi dregist saman á milli vikna vegna kulda í Norður-Ameríku.

Talsverðar umframbirgðir af olíu er í Bandaríkjunum enda leiddi gott tíðarfar vestra beggja vegna áramóta til þess að eftirspurn eftir eldsneyti og olíu til húshitunar minnkaði. En verði það raunin að olíubirgðir lækki á milli vikna verður það í fyrsta sinn í sjö vikur sem slíkt gerist.

Hráolíuverð lækkaði um 36 sent á markaði í Bandaríkjunum í dag og stendur nú í 56,61 dal á tunnu. Olíuverðið hækkaði um 2,96 dali á tunnu í gær, eða um 5 prósent. Olíuverð hefur ekki hækkað jafn mikið á einum degi síðast seint í september árið 2005.

Þá lækkaði verð á Brent-olíu um 34 sent og stendur hún í 56,05 dölum á tunnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×