Innlent

Lýsing af leiknum hraðaði akstrinum

Lögregla fordæmir hraðakstur ökumanns sem var mældur á 134 km hraða á Reykjanesbraut í Garðabæ þar sem hámarkshraði er 50 km.
Lögregla fordæmir hraðakstur ökumanns sem var mældur á 134 km hraða á Reykjanesbraut í Garðabæ þar sem hámarkshraði er 50 km. MYND/Hörður Sveinsson

Sautján ára gömul stúlka var stöðvuð á Vesturlandsvegi í gær á 125 km hraða. Hún gaf lögreglu þá skýringu að hún hefði gleymt sér við lýsingu í útvarpinu á leik Íslendinga og Dana. Í fréttatilkynningu frá Lögreglunni segir að í hita leiksins hafi hún gleymt að fylgjast með hraðamælinum. Skömmu síðar var liðlega tvítugur piltur tekinn á sama vegi á 129 km hraða.

Þá var karlmaður á þrítugsaldri stöðvaður í gærkvöldi á Reykjanesbraut í Garðabæ á 134 km hraða, en þar er hámarkshraði 50 km auk þess sem framkvæmdir standa þar yfir. Lögregla lítur atvik af þessu tagi alvarlegum augum og fordæmir slíkan háskaakstur.

Lögreglan í Reykjavík stöðvaði 18 ára pilt sem keyrði fram úr strætisvagni á gangbraut í Breiðholti. Drengurinn hafði aldrei öðlast ökuréttindi og sagðist hafa verið að fíflast.

Ökumaður stakk af eftir að hafa ekið á karlmann á sjötugsaldri í austurborginni í gærmorgun.

Tuttugu og fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×