Erlent

Tyrknesk mafía neyddi Bagger til svikanna að hans sögn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Scanpix

Það voru glæpamenn af tyrkneskum og pakistönskum uppruna sem neyddu stórsvindlarann Stein Bagger út á glæpabrautina.

Þetta var að minnsta kosti sú skýring sem Bagger gaf fyrir dómi í heimalandi sínu Danmörku í gær en þangað er hann nú kominn eftir að hann gaf sig fram við lögregluna í Los Angeles í október.

Bagger er ákærður fyrir milljarðasvik með því að hafa beitt upplýsingatæknifyrirtækinu IT Factory sem eins konar peningaverksmiðju meðan hann vermdi forstjórastólinn þar. Bagger hlaut á sínum tíma dönsk viðskiptaverðlaun og þarlendur fjármálaheimur stóð hreinlega á öndinni yfir rífandi uppgangi IT Factory sem að sjálfsögðu var of góður til að vera sannur.

Bagger keypti tölvubúnað sem aldrei var til af erlendum stórfyrirtækjum sem reyndar voru ekki til heldur. Það eina sem var til voru myndarlegir reikningar sem streymdu frá fyrirtækjunum og Bagger greiddi að sjálfsögðu eins og heiðarlegt fólk gerir.

Almennt er talið að Bagger hafi átt í samstarfi við vélhjólasamtökin Hells Angels en þetta þvertekur hann fyrir og bendir á tyrkneska mafíu sem kúgaði hann til fjársvikanna. Er mál Baggers þá eins konar Tyrkjarán á danskri grundu?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×