Innlent

Ætlar ekki að senda Villa til Kanada

Geir H Haarde forsætisráðherra
Geir H Haarde forsætisráðherra

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir ekkert til í því að Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson oddviti Sjálfstæðismanna í borginni sé að verða sendiherra í Kanada. Þetta kom fram í Íslandi í dag fyrir stundu.

Geir skipaði Markús Örn Antonsson sendiherra í Kanada sem forstöðumann Þjóðmenningarhúss í dag. Í kjölfar þess fóru af stað sögur um að Vilhjálmur Þ tæki við sendiherrastarfi Markúsar.

„Það er ekkert til í því. Markús var á lausu og var fluttur til í starfi. Hann er mjög hæfur í þetta verkefni og ég tel það mjög gott mál," sagði Geir í viðtali við Ísland í dag fyrir stundu.

Hann sagði þetta ekki lið í öðrum hrókeringum, sendiherrar væru vanir því að vera fluttir til í starfi.

Þar með er Geir búinn að blása á ákveðna fléttu sem menn hafa verið að ræða í dag. Sú flétta gekk út á það að Vilhjálmur færi í sendiherrastöðuna í Kanada, Björn Bjarnason yrði borgarstjóri og Bjarni Benediktsson tæki við embætti dómsmálaráðherra.

Geir sagði einnig að allt tal um valdatafl í Sjálfstæðisflokknum væri úr lausu lofti gripið og hann skyldi ekki þegar verið væri að tala um tvo andtæða arma í flokknum, sérstaklega þegar menn töluðu um fyrrverandi formann flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×