Sport

Ísland rúllaði upp Wales

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragna Ingólfsdóttirr slær en Katrín Atladóttir bíður átekta.
Ragna Ingólfsdóttirr slær en Katrín Atladóttir bíður átekta. Mynd/Völundur

Íslenska kvennalandsliðið í badminton vann öruggan 5-0 sigur á Wales á Evrópumóti landsliða sem fer fram í Almere í Hollandi þessa dagana. Karlalandsliðið tapaði hins vegar fyrir Spánverjum, 4-1.

Tinna Helgadóttir, Katrín Atladóttir og Sara Jónsdóttir unnu allar viðureignirnar í einliðaleik og þær Ragna Ingólfsdóttir og Katrín annars vegar og Sara og Tinna hins vegar í tvíliðaleik. Ísland tapaði ekki einni lotu í öllum viðureignunum.

Á morgun mætir svo Ísland liði Þýskalands í hreinum úrslitaleik um hvort liðið kemst áfram í fjórðungsúrslit. Þjóðverjar eru með gríðarlega sterkt lið og hafa unnið bæði Ítalíu og Wales með fimm viðureignum gegn engri. Þýsku keppendurnir töpuðu reyndar ekki lotu í þeim viðureignum.

Það verður því á brattann að sækja hjá íslenska kvennalandsliðinu á morgun.

Karlalandsliðið tapaði í gær fyrir Rússum, 5-0, og í dag fyrir Spánverjum. Tryggvi Nielsen og Atli Jóhannesson unnu síðustu viðureign liðanna, í tvíliðaleik, 2-0 (21-18 og 22-20).

Þar fyrir utan vann Ísland eina aðra lotu gegn Spánverjum. Helgi Jóhannesson vann Nicolas Escartin, 23-21, í fyrstu lotu þeirra en tapaði þeim næstu 21-8 og 21-19.

Ísland mætir á morgun Tyrklandi sem hefur einnig tapað báðum viðureignum sínum til þessa. Tyrkir hafa þó ekki náð að vinna lotu á mótinu og eru því líkur íslenska liðsins á sigri ágætar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×