Viðskipti innlent

Ekki stefnt að sölu D‘Angleterre

Gísli við d‘angleterre Flottasta hótel Norðurlandanna stendur í hjarta Kaupmannahafnar við Nytorv.  
Markaðurinn/Samsett mynd
Gísli við d‘angleterre Flottasta hótel Norðurlandanna stendur í hjarta Kaupmannahafnar við Nytorv. Markaðurinn/Samsett mynd
„Ég veit ekki hvaðan þessar upplýsingar eru komnar, svo sannarlega ekki frá mér,“ segir Gísli Reynisson, meirihlutaeigandi í eignarhaldsfélaginu Nordic Partners, sem á dönsku hótelin Kong Frederik, Front og D‘Angle­terre, eitt þekktasta hótel Norðurlanda.

Nordic Partners keypti rekstrarfélag hótelanna í fyrrahaust Kaupverð var ekki gefið upp.

Danska dagblaðið Berlingske Tidende sagði í gær verðið hafa verið nálægt einum milljarði danskra króna. Í kjölfar bankahrunsins hafi orðrómur farið á kreik um að Nordic Partners þreifi fyrir sér með sölu. Danskir fjárfestar hafi ekki áhuga á hótelunum og séu fjárfestar frá Þýskalandi, Hollandi og Austurríki helst taldir koma til greina. Þeir horfi til mikillar uppstokkunar. Eins og aðstæður séu í dag hafi fáir áhuga nema á niðursettu verði.

Gísli undrast umfjöllun blaðsins, segir hana á svipuðum nótum og í byrjun mánaðar þegar Berlingske sagði hótelin komin í eigu Landsbankans. Hið rétta sé að bankinn hafi komið að fjármögnun kaupanna.

„Sem fjárfestingarfélag höfum við ekkert á móti því að selja hlut í hótelunum. En sala á þeim er ekki í myndinni,“ segir Gísli. - jab





Fleiri fréttir

Sjá meira


×