Lífið

Þrefalt dýrara á Hróarskeldu

Búast má við töluvert færri Íslendingum á Hróarskeldu næsta sumar en undanfarin ár.
Búast má við töluvert færri Íslendingum á Hróarskeldu næsta sumar en undanfarin ár.

„Ég veit ekki hvernig þetta verður. Ég á ekki von á því að það verði jafnmikil þátttaka og síðustu ár," segir Tómas Young, íslenskur tengiliður Hróarskelduhátíðarinnar í Danmörku.

Miðaverð á hátíðina, sem er haldin á hverju sumri, hefur hækkað upp úr öllu valdi eftir fall íslensku krónunnar. Miðasalan fyrir næstu hátíð hefst 1. desember og kostar miðinn heilar 42.900 krónur, sem er 13 til 16 þúsund króna hækkun á milli hátíða. Fyrir hátíðina í sumar var miðinn seldur á bilinu 24 til 30 þúsund krónur og fór verðið eftir gengi krónunnar í hvert skipti.

„Þetta er ekkert Hróarskeldutengt. Þetta er bara efnahagsástandið og ég held að allir séu að draga saman seglin. Kannski verða það þeir allra hörðustu sem halda áfram og láta sig hafa það sama hvað það kostar," segir Tómas, spurður um þetta háa miðaverð.

Til frekari samanburðar þá kostaði miðinn á hátíðina í fyrra aðeins 16 til 17 þúsund krónur sem er næstum þrisvar sinnum lægra en nú og því hafa sviptingarnar verið gríðarlegar í miðasölunni á örskömmum tíma.

Fjöldi Íslendinga á Hróarskeldu sem keypti miða hérlendis tvöfaldaðist á árunum 2004 til 2007 og fór úr rúmum 760 manns í rúm 1.600. Á þessu ári kvað aftur á móti við nýjan tón því þá hrapaði fjöldinn niður í 860 manns.

„Ég held að þetta sé of dýrt fyrir alla Íslendinga. Danska krónan er 25 kall. Ódýrasta flugið til Hróarskeldu er 41 þúsund, þannig að þetta er 84 þúsund kall í minnsta lagi. Það er of mikið. Þó að þetta sé góð hátíð og sú besta í heimi gæti þetta verið of stór biti," segir Tómas og líst ekki á blikuna. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.