Guðmundur Jónsson fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins verður ákærður fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum. Ein þeirra var undir lögaldri.
Guðmundi er gefið að sök að hafa notfært sér andlega annmarka kvennanna til þess að hafa við þær samræði eða önnur kynferðismök meðan þær voru til meðferðar í Byrginu, þar sem hann gengdi stöðu forstöðumanns.
Fyrst var greint frá málinu í fréttaskýringaþættinum Kompási í desember 2006 en þar kom fram að Guðmundur hefði um árabil misnotað kynferðislega ástand kvenna. Guðmundur neitaði staðfastlega sök en á vikunum eftir að þátturinn var sýndur kærðu átta konur hann til lögreglu.
Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að búið sé að fella niður mál fjögurra þeirra og að eftir standi ákærur hinna fjögurra. Þá hefur fréttastofa heimildir fyrir því að ein þeirra hafi verið undir lögaldri þegar brotin áttu sér stað. Lögmanni Guðmundar, Hilmari Baldurssyni, hefur verið tjáð að ákærur verði gefnar út.
Í samtali við fréttastofu sagði Hilmar hins vegar að enn hefðu ákærurnar ekki borist sér eða skólstæðingi sínum en hann vænti þess að fá þær í hendur á næstu dögum. Þangað til gæti hann ekki tjáð sig um efnisatriði þeirra.