Það er enginn haustbragur á meisturum Boston Celtics í NBA deildinni og liðið hefur unnið sjö af fyrstu átta leikjum sínum í vetur.
Boston tók á móti keppinautum sínum í Toronto í fyrrinótt og þar mátti greinilega sjá að atmennið Kevin Garnett ætlar ekki að slaka á klónni þó tímabilið sé nýbyrjað. Kapp hans var á við það sem sjá má í úrslitakeppninni.
Garnett reyndi sitt ítrasta til að taka spænska leikstjórnandann Jose Calderon á taugum á tímabili í leiknum eins og sjá má í myndbandinu með fréttinni.
Spánverjinn var þó ekki á því að láta ýta við sér og svaraði í sömu mynt. Það vakti furðu margra að dómarar leiksins hefðu ekki dæmt tæknivillu á Garnett fyrir kappsfullt látbragðið, en það verður að viðurkennast að menn eins og Garnett setja óneitanlega skemmtilegan svip á deildina.
Smelltu hér til að sjá myndband af viðskiptum þeirra Garnett og Calderon.