Viðskipti innlent

Enn lækka bréf í Eimskipafélaginu

Gámur skipaflutningafélagsins skoðaður.
Gámur skipaflutningafélagsins skoðaður. Mynd/Teitur
Gengi hlutabréfa í Eimskipafélaginu féll um 5,42 prósent við upphaf viðskipta í Kauphöllinni í dag og bréf Straums um rétt rúm þrjú prósent. Bæði félögin tengjast ferðaskrifstofunni XL Leisure Group, sem hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þá birti Eimskipafélagið uppgjör sitt í gær en þar kom fram að það hefði tapað rúmum 2,5 milljörðum króna á þriðja fjórðungi ársins þrátt fyrir að tekjur félagsins hafi aukist um tæpan helming. Afskriftir settu hins vegar strik í reikninginn. Gengi bréfa í Eimskipafélaginu fór hæst í 42,8 krónur á hlut 22. október í fyrra. Það stóð í morgun í rétt rum 9,5 krónum á hlut og nemur fallið frá hæsta gildi því 77,8 prósentum. Þar af hefur það fallið um 34 prósent frá mánaðamótum. Þá lækkaði gengi bréfa í Bakkavör um 1,41 og í Landsbankanum um 1,16 prósent í byrjun dags. Bréf í Marel, Glitni, Kaupþingi og Atorku lækkaði um tæpt prósent á sama tíma. Bréf Færeyjabanka voru þau einu á uppleið í upphafi dags, en gengi þeirra hækkaði um 0,32 prósent. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,9 prósent og stendur hún í 3.933 stigum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×