Innlent

Fyrrverandi FL Group-starfsmaður flýgur frítt á Saga Class

Albert Jónsson.
Albert Jónsson.

Albert Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður hjá FL Group, flýgur enn ókeypis á Saga Class í boði Icelandair jafnvel þótt tæp tvö ár séu frá því að hann hætti að vinna hjá félaginu. Frá því var gengið þegar FL Group seldi Icelandair núverandi eigendum í október 2006.

Í kaupsamningnum var ákvæði þar sem núverandi eigendur Icelandair áttu að yfirtaka þann hluta ráðningarsamnings fimm af æðstu stjórnendum FL Group sem laut að fríum flugferðum fyrir þá og maka þeirra til æviloka. Þetta ku hafa tíðkast hjá Icelandair í gegnum tíðina og þannig hafa forstjórarnir Sigurður Helgason yngri og eldri sem og Hörður Sigurgestsson, fyrrverandi stjórnarformaður, slíka samninga.

Núverandi eigendur Icelandair gátu ekki fellt sig við þetta ævilanga ákvæði og var samið um að stytta gildistíma þess niður í fimm ár. Að því loknu átti FL Group að yfirtaka skuldbindinguna.

Fjórir af þessum einstaklingum, þeirra á meðal Hannes Smárason og Jón Sigurðsson, núverandi forstjóri, sömdu þetta ákvæði frá sér í fyrra en sá eini sem er enn með þetta ákvæði er Albert Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta hjá FL Group. Hann hætti í mars á síðasta ári og náði því að hætta áður en farið var í þær aðgerðir að fella þetta ákvæði niður.

Albert hefur verið duglegur að ferðast og eru flugferðir hans með Icelandair, ókeypis og á Saga Class, samkvæmt heimildum Vísis nálægt hundraðinu frá því að salan fór fram í október 2006. Ef Albert næst ekki að samningaborðinu þá borgar Icelandair fríar flugerðir fyrir hann og maka næstu þrjú árin á Saga Class.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×