Íslenski boltinn

Sverrir með 100 prósent árangur sem þjálfari Fylkis

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frá leik Fylkis og FK Riga í Intertoto-keppninni í sumar.
Frá leik Fylkis og FK Riga í Intertoto-keppninni í sumar.

Sverrir Sverrisson var í dag ráðinn þjálfari Fylkis út núverandi tímabil. Þetta er í annað skiptið sem hann tekur við liðinu undir lok tímabilsins.

Hann gerði það í fyrra skiptið haustið 2005 eftir að Þorláki Árnasyni var sagt upp störfum sem þjálfara liðsins.

Þá stýrði Sverrir liðinu ásamt Jóni Sveinssyni sem var sagt upp störfum í gær, rétt eins og Leifi Garðarssyni sem var þar til í gær þjálfari Fylkis. Jón var aðstoðarmaður hans.

Sverrir og Jón stýrðu Fylki í tveimur leikjum haustið 2005 og vann Fylkir báða þá leiki. Fyrst gegn FH í Kaplakrika, 2-1, og svo gegn ÍBV í Árbænum í lokaumferð mótsins, 1-0.

Sverrir lék á árunum 2000 til 2003 67 deildarleiki með Fylki og skoraði í þeim 17 mörk. Þar að auki á hann aðra 67 leiki í efstu deild að baki með ÍBV, Leiftri og KA. Hann skoraði í þeim 21 mark og lauk svo ferlinum í næstefstu deild með Breiðabliki árið 2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×