Íslenski boltinn

Valur stað­festir í annað sinn að Fann­ey Inga sé á leið til Sví­þjóðar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fanney Inga Birkisdóttir í leik með Val.
Fanney Inga Birkisdóttir í leik með Val. Vísir/Anton Brink

Markvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir er á leið til sænska félagsins BK Häcken. Þetta staðfesti fyrrum félag hennar Valur í annað sinn nú í kvöld, mánudag.

Valur greindi frá því á dögunum að hin 19 ára gamla Fanney Inga væri á leið til Svíþjóðar og líklega væri um metfé að ræða fyrir leikmann úr Bestu deildinni. Fanney Inga greindi hins vegar sjálf frá því að félagaskiptin væru ekki gengin í gegn og því eyddi Valur færslunni um söluna á Fanneyju Ingu.

Nú hefur Valur hins vegar endanlega staðfest söluna og að Fanney Inga muni spila í Svíþjóð á næsta ári.

„Fanney Inga er geggjaður markvörður og það gleður okkur mjög að hún sé nú á leið í topplið í Svíþjóð. Fanney er gott dæmi um stelpu sem hefur lagt ótrúlega mikið á sig til þess að ná markmiðum sínum og það hefur hún gert hér hjá okkur í Val,“ segir Björn Steinar Jónsson formaður knattspyrnudeildar Vals.

Björn Steinar segir kaupverðið trúnaðarmál en Valur sé að fá upphæð sem ekki hafi sést áður í íslenskum kvennafótbolta.

„Og Fanney Inga stendur alveg undir því enda teljum við að hún eigi eftir að ná langt í framtíðinni. Við óskum henni alls hins besta og getum ekki beðið eftir því að fylgjast með henni á stóra sviðinu,“ segir Björn Steinar að endingu í tilkynningu Vals.

Fanney Inga hefur spilað 45 leiki í Bestu deildinni þrátt fyrir undan aldur og á að baki sjö A-landsleiki. Þeir væru eflaust orðnir fleiri hefði hún ekki orðið fyrir höfuðhöggi og misst af leikjum Íslands gegn Bandaríkjunum á dögunum. Þá á hún að baki 21 leik fyrir yngri landslið Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×