Erlent

Trevor Rees fyrir réttarrannsókn Díönu á morgun

Stuttu fyrir slysið. Trevor Rees stillir skyggnið en Henry Paul er undir stýri.
Stuttu fyrir slysið. Trevor Rees stillir skyggnið en Henry Paul er undir stýri. MYND/AFP

Trevor Rees, eini maðurinn sem komst lífs af úr bílslysinu sem tók líf Díönu prinsessu mun bera vitni við réttarrannsóknina á dauða prinsessunnar á morgun. Auk Díönu lést Dodi Fayed ástmaður hennar og Henri Paul bílstjóri.

Fyrrverandi lögreglustjóri sagði við réttarrannsóknina á fimmtudag að Díana hefði ekki látist hefði hún samþykkt lögregluvernd.

Rees sem áður gekk undir nafninu Trevor Rees-Jones var í framsæti Benz bifreiðarinnar þegar áreksturinn varð. Hann hlaut alvarleg meiðsl í slysinu 31. ágúst árið 1997. Hann hefur áður sagt að hann muni ekkert frá árekstrinum. Það síðasta sem hann muni það kvöld var þegar bíllinn keyrði burt frá Ritz hótelinu í París. Næst muni hann frá dvöl sinni á sjúkrahúsinu viku seinna þegar foreldrar hans sögðu honum að allir aðrir sem voru í bílnum hefðu látist.

Þegar bílslysið varð var Rees lífvörður á vegum Mohamed Al Fayed sem fékk hann til að fara í ferðina til Parísar og gæta Dodi og prinsessunnar. Hann hlaut mikil meiðsl á neðri kjálka, neðri hluta heilans og lungnakerfi og hefur undirgengist fjölmarga uppskurði sem Al Fayed hefur greitt fyrir. Rees vinnur ekki lengur fyrir Al Fayed og segir að sú vinátta sem hann átti við Mohamed sé horfin eftir slysið.

Í viðtali við Larry King á CNN árið 2000 sagði Rees að hann hefði hætt að vinna fyrir Al Fayed af því hann hefði fundið fyrir þrýstingi að hann styddi samsæriskenningar hans um slysið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×