Körfubolti

Hallast að því að framlengja við Keflvíkinga

Magnús Gunnarsson reiknar með að verða áfram í Keflavík
Magnús Gunnarsson reiknar með að verða áfram í Keflavík Mynd/Heiða

Stórskyttan Magnús Þór Gunnarsson hjá Keflavík sagði 80% líkur á því að hann yrði áfram hjá Keflavík næsta vetur þegar liðið hampaði Íslandsmeistaratitlinum á dögunum.

Magnús sagði að það myndi ráða miklu um framtíðaráform sín hvað Sigurður þjálfari ætlaði að gera og sagðist helst vilja "spila fyrir besta þjálfara á landinu."

Sigurður framlendi við Keflvíkinga í gær og í framhaldinu sló Vísir á þráðinn til Magnúsar, sem er búinn að uppreikna líkurnar síðan þá.

"Ætli séu ekki svona 13% líkur á því að ég fari frá Keflavík núna," sagði Magnús, greinilega með allt á hreinu.

"Það má segja að mín samningamál hafi farið af stað í gær og ég reikna alveg eins með því að verða búinn að framlengja við Keflavík á föstudaginn," sagði Magnús.

En hefur það kitlað hann að breyta til og skipta um félag?

"Það var bara talað við mig fyrst í fyrra og þá munaði ekki miklu að ég hefði slegið til. Það sem ég er að leita að er að spila með réttum mönnum. Ég er búinn að spila með sumum af þessum köllum í Keflavík allt mitt líf og það er farið að kitla að spila með einhverjum öðrum. Maður hefur prófað að spila með öðrum mönnum á landsliðsæfingum og líður vel, þannig að það er eiginlega stærsti þátturinn í þessu. Þetta hefur minna með peninga að gera, þetta snýst aðallega um að fá góða vinnu og gott heimili fyrir fjölskylduna," sagði Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×