Körfubolti

Treyja Bryants marg­faldast í verði og varð sú fjórða dýrasta í sögunni

Sindri Sverrisson skrifar
Það eru tæp 29 ár liðin síðan að Kobe Bryant heitinn var kynntur til leiks hjá LA Lakers.
Það eru tæp 29 ár liðin síðan að Kobe Bryant heitinn var kynntur til leiks hjá LA Lakers. Getty/Steve Grayson

Fyrsta LA Lakers-treyjan sem Kobe Bryant klæddist í NBA-deildinni í körfubolta var seld á uppboði í gær og varð þar með fjórða dýrasta íþróttatreyja sögunnar.

Bryant klæddist treyjunni í sjö leikjum á sinni fyrstu leiktíð í NBA, tímabilið 1996-97. Hún seldist á sjö milljónir Bandaríkjadala eða tæpar 890 milljónir króna.

Bryant lék allan sinn feril með Lakers og vann fimm NBA-meistaratitla auk þess að vera valinn verðmætasti leikmaðurinn, MVP, árið 2008.

Treyjan var fyrst seld árið 2013 fyrir 115.242 dali, sjö árum áður en Bryant og Gianna dóttir hans létust í þyrluslysi, og hefur því margfaldast í verði.

Treyja hafnaboltakappans Babe Ruth er sú dýrasta í sögunni, eftir að hafa selst á 24 milljónir dala í ágúst síðastliðinum.

Treyja sem Michael Jordan klæddist á lokaleiktíð sinni með Chicago Bulls er í 2. sæti en hún seldist á 10,1 milljón dala.

Í 3. sætinu er svo treyjan sem Diego Maradona var í þegar hann skoraði með „hendi Guðs“ gegn Englandi á HM 1986.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×