Fótbolti

Ég hefði þurft að stökkva út um gluggann

NordcPhotos/GettyImages

Gennaro Gattuso segir að það hafi aldrei staðið raunverulega til að fara frá AC Milan, nokkrum dögum eftir að hann skrifaði undir nýjan samning við félagið.

"Ég var aðeins fimm mínútur að koma því sem ég var ósáttur við á framfæri á fundinum með Ancelotti og Galliani. Við erum enn vinir eins og áður og ég mun ljúka ferlinum hjá Milan," sagði Gattuso í samtali við ítalska fjölmiðla í dag.

"Ég hugsaði aldrei raunverulega um að fara, því það hefði verið mjög erfitt eftir níu ára feril hér. Um leið og ég gekk inn á skrifstofuna, lokaði Galliani hurðinni og sagði mér að ef ég ætlaði að fara frá Milan - yrði ég að fara út um gluggann," sagði miðjumaðurinn harðskeytti.

"Það er sérstakt að klæðast treyju Milan og þá er stuðningur fylgismanna liðsins mér mikilvægur. Ég vildi ekki fara og vera stimplaður svikari eins og Andriy Shevchenko," sagði Gattuso.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×