Viðskipti innlent

Seðlabankinn hefði átt að grípa fyrr til aðgerða

Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands.
Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands.

„Seðlabankinn er í mjög erfiðri stöðu," segir Gylfi Magnússon, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Gylfi, sem var gestur Björns Inga Hrafnssonar í Hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag, sagði Seðlabankann annars vegar horfa fram á mjög mikið verðbólguskot þar sem verðbólga sé fimm sinnum hærri en verðbólgumarkmið Seðlabankans. „Það er eðlilegt að hann bregðist við því með háum stýrivöxtum," segir Gylfi og bendir á að það hafi ekki skilað þeim árangri sem menn hafi vonast til. Þá sagði hann bankann glíma við fjármagnsskort.

Gylfi sagði svo geta farið að hagkerfið sé að kólna hratt og gætu margir lent í vandræðum, ekki síst ef bankar skrúfi fyrir útlán. "Við þau skilyrði ætti Seðlabankinn alla jafna að dæla fé inn í hagkerfið," segir hann. Bankar beggja vegna Atlantsála hafi brugðið á það ráð. „Íslenski seðlabankinn er hins vegar á milli steins og sleggju."

Gylfi sagði sömuleiðis að hægt hefði verið að sjá fyrir þann vanda sem hagkerfið standi frammi fyrir nú og hefði átt að auka gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans fyrr. „Hann er alltof lítill miðað við umsvif fjármálakerfisins. En það er auðvelt að vera vitur eftir,“ sagði Gylfi og benti á að íslenska krónan geri lítið gagn. „Það var vítaverð vanræksla að grípa ekki til aðgerða fyrr.“

Hádegisviðtalið má sjá í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×