Fótbolti

Juventus ætlar að byggja nýjan völl

Elvar Geir Magnússon skrifar
Leikmenn Juventus eru væntanlega fullir tilhlökkunar eftir nýjum heimavelli.
Leikmenn Juventus eru væntanlega fullir tilhlökkunar eftir nýjum heimavelli.

Ítalska stórliðið Juventus hefur kynnt áætlanir um byggingu á nýjum 40 þúsund sæta leikvangi. Juventus verður þá fyrsta félagið í ítölsku A-deildinni til að eignast aðalleikvang en flestir vellir á Ítalíu eru í eigu borgaryfirvalda.

Juventus spilar nú á Stadio Olimpico ásamt erkifjendunum í Torino. Áætlað er að nýi leikvangurinn muni opna í maí 2011. Hann verður staðsettur þar sem Delle Alpi völlurinn er en Juventus hætti að spila heimaleiki sína þar 2006.

Delle Alpi var opnaður 1990 en völlurinn var aldrei vinsæll meðal stuðningsmanna Juventus sem sögðu hann sálarlausan og líktu umgjörðinni við steypuskrímsli. Mætingin á völlinn var dræm og oft undir 30 þúsund manns sem mættu á heimaleiki Juventus 2005 og 2006 þrátt fyrir gott gengi liðsins en völlurinn tekur um helmingi fleiri.

Engin hlaupabraut verður í kringum nýja völlinn hjá Juventus og verður leikvangurinn því meira í líkingu við það sem þekkist á Englandi og víðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×