Lífið

Óbirtar Glitnisauglýsingar með Frímanni

Breki Logason skrifar
Frímann Gunnarsson býður upp á fjármálaráðgjöf í óbirtum auglýsingum Glitnis.
Frímann Gunnarsson býður upp á fjármálaráðgjöf í óbirtum auglýsingum Glitnis.

Ragnar Hansson leikstjóri framleiddi átta sjónvarpsauglýsingar með lífskúnstnernum Frímanni Gunnarssyni fyrir Glitni. Á sama tíma og auglýsingarnar voru tilbúnar tók ríkið hinsvegar bankann yfir og flestir þekkja framhaldið. Auglýsingarnar hafa enn ekki verið birtar en Ragnar telur ekki útilokað að þær fari í loftið. Um er að ræða fjármálaráðgjöf Glitnis með hinum eina sanna Frímanni Gunnarssyni.

„Ég veit ekkert hvort þær verði birtar eða ekki, þær eru allavega tilbúnar en þetta hafa verið skrýtnir tímar," segir Ragnar sem einnig leikstýrði gamanþáttunum Sigtinu með Frímanni Gunnarssyni.

„Þetta er svona fjármálaráðgjöf með léttum húmor. Við gerðum auglýsingar með honum fyrir Reykjavíkurmaraþonið í fyrra og þessar eru svipaðar. Þetta eru frábærar auglýsingar og það er leiðinlegt ef þær fara ekki í birtingu. Ég skil þá samt mjög vel," segir Ragnar.

Hann segir auglýsingarnar ekkert grófari en auglýsingarnar með Páli Óskari sem Byr hefur verið að keyra undanfarið. „Frímann er bara meiri fáviti."

„Við munum birta þessar auglýsingar þegar og ef við teljum tímann vera réttan til þess enda er efnið gott," segir Már Másson upplýsingafulltrúi Glitnis.

„Samstarfið við Frímann var í senn skemmtilegt og lærdómsríkt. Hann hefur, eins og allir vita, afar næmt listamannsauga og er mjög kröfuharður á sjálfan sig. Þetta samstarf markaðist óneitanlega af því. En útkoman er skemmtileg enda er Frímann mikill fagmaður sem lætur sér fátt óviðkomandi," segir Már.

Ragnar segir að annars sé lítið að frétta af Frímanni og engin plön séu um að framleiða fleiri þætti með honum. Hann segir þó hópinn sem staðið hefur á bak við Frímann vera með annað verkefni í burðarliðnum. „Það tengist samt Frímanni ekki neitt."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.