James Gray hefur samþykkt að leikstýra nýjustu mynd Brads Pitt, The Lost City of Z. Um epíska ævintýramynd er að ræða sem er byggð á bók Davids Grann um sannsögulega atburði. Fjallar hún um breska hermanninn Percy Fawcett sem varð heltekinn af leit sinni að hinni týndu borg Z í Amazon-frumskóginum. Árið 1925 fór hann ásamt syni sínum í leiðangur til að finna Z og sneru þeir feðgar aldrei aftur úr svaðilförinni.
Síðasta mynd í leikstjórn James Gray, We Own the Night, kom út fyrr á árinu með Mark Wahlberg og Joaquin Phoenix í aðalhlutverkum.

