Innlent

Útilokar ekki frekari skattahækkanir

Geir H. Haarde
Geir H. Haarde

Nú rétt í þessu var að ljúka blaðamannafundi í Alþingishúsinu þar sem fjárlagafrumvarpið var kynnt. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Geir H. Haarde og Árni Mathiesen ræddu við fjölmiðla. Geir útilokaði ekki að skattar yrðu hækkaðir frekar en samkvæmt frumvarpinu verður tekjuskattur hækkaður um 1 prósentustig.

„Við útilokum ekki neitt hvað það varðar," sagði Geir aðspurður um frekari skattahækkanir. Vonast er til þess að frumvarpið verði samþykkt fyrir jól og voru dagsetningarnar 20.des eða 21.desember nefndar í því samhengi.

Ljóst er að einhverjum vegaframkvæmdum verður slegið á frest en þingið á eftir að samþykkja hvaða framkvæmdir það eru. Gert var ráð fyrir að árið 2009 yrði mesta framkvæmdarár í sögunni hvað varðar fjárframlög frá ríkinu en nú er ljóst að það verður á pari miðað við árið 2008.

Ingibjörg Sólrún sagði að það væri alveg ljóst að ekki væri farið í svona aðgerðir nema því fylgdi sársauki, mikilvægt væri þó að standa vörð um ákveðna hópa. Ekki væri hróflað við barnabótum, persónuafslætti og um leið skattleysismörkum.

„Við erum ekki komin á leiðarenda, þetta er eitt skref af mörgum," sagði Geir á fundinum og vísaði þar til ummræddra sparnaðaraðgerða. Miðað er að því að ná hallanum á fjárlögunum úr 215 milljörðum niður í 170 milljarða.

Frekari upplýsingar um frumvarpið má sjá í meðfylgjandi frétt.










Tengdar fréttir

Tekjuskattur verður hækkaður um eitt prósentustig

Tekjuskattur hækkar um 1 prósentustig auk heimildar til hækkunar á útsvari. Með þessum og fleiri aðgerðum mun halli ríkissjóðs verða 165 – 170 milljarðar króna en hefði að óbreyttu geta orðið u.þ.b. 215 milljarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×