Erlent

Evrópusambandið styður ekki gjaldbreytingar vegna olíuverðs

Óli Tynes skrifar
Engin miskunn hjá ESB.
Engin miskunn hjá ESB.

Evrópusambandið mun ekki styðja gjaldabreytingar vegna síhækkandi verðs á eldsneyti.

Víða hefur komið til mótmæla vegna hækkananna meðal annars í Frakklandi og Bretlandi. Frakkar hafa óskað eftir að fá að hækka styrki til sjávarútvegsins vegna þessa.

Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands segir hinsvegar að hátt olíuverð sé alþjóðlegt vandamál sem ekki verði leyst með sértækum lausnum einstakra þjóða.

Þessu er efnahags- og fjármálastjóri Evrópusambandsins sammála. Joaquin Almunia sagði á fundi með fréttamönnum í dag að Sambandið hefði í Manchester árið 2005 ákveðið að lækka ekki gjöld á eldsneyti vegna verðhækkana.

Fjármálaráðherrar Sambandsins voru sammála um að slíkar lækkanir myndu aðeins ýta undir ónáttúrlega eftirspurn eftir olíu og senda röng skilaboð til framleiðenda.

Fjármálaráðherrar þeirra 15 ríkja Evrópusambandsins sem hafa evruna sem gjaldmiðil munu fjalla um þetta mál á mánaðarlegum fundi sínum með bankastjóra Evrópska seðlabankans á mánudag.

Almunia segir að þar verði engin breyting á stefnu þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×