Innlent

Þorgerður Katrín: Til efs að þjóðinni sé jafn hlýtt til nokkurs annars manns

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

„Maður verður mjög hryggur þegar maður heyrir þessi tíðindi," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og starfandi forsætisráðherra um fráfall Sigurbjörns Einarssonar biskups. Sigurbjörn lést í morgun 97 ára að aldri.

„Mann setur hljóðan og ég held að öll þjóðin sé þakklát fyrir það að hafa fengið að njóta samfylgdar hans," segir Þorgerður. „Mér er til efs að þjóðinni sé jafn hlýtt til nokkurs annars manns," bætir Þorgerður við. Hún bendir á að Sigurbjörn hafi verið mikill landsfaðir.

Þorgerður minnist einstakra hæfileika Sigurbjörns til að setja fram hugsun sína um trúarleg og heimspekileg málefni í ræðu og riti. Framlag hans til íslenskrar tungu hafi verið mjög mikilvægt, enda sæmdi Þorgerður hann verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu í nóvember. „Það má segja að hann hafi fylgt þjóðinni á hógværan og einlægan hátt," segir Þorgerður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×