Erlent

Búrma: Talið að rúmlega 100 þúsund hafi farist

Guðjón Helgason skrifar

Bandarískir sendifulltrúar segjast hafa heimildir fyrir því að rúmlega hundrað þúsund manns hafi farist þegar fellibylur gekk yfir Búrma um síðustu helgi. Ómar Valdimarsson, sendifulltrúi Rauða kross Íslands, var í Búrma 2003. Hann óttast að mun fleiri hafi farist en herforingjastjórnin í landinu hefur viðurkennt.

Ómar segir hamfarasvæðið stórt og erfitt yfirferðar í augnablikinu en ef til vill sé alltaf erfitt að komast þar um. Þarna hafi einhverir tugir þúsunda manna verið og enginn vitað um þetta fólk. Stór hópur þess hafi án efa farist.

Ómar starfaði um árabil á svæðisskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Suðaustur-Asíu og vann náið með Rauða krossinum í Búrma á þeim tíma. Hann þekki vel til á svæðinu þar sem fellibylurinn gekk yfir.

Hann segir að þó herforingjastjórnin opin fyrir neyðaraðstoð geti reynst erfitt að koma hjálpargögnum til þeirra sem eigi um sárt að binda. Vegir séu vondir þar sem þeir þó séu. Fólk ferðist um á bátum á óshólmasvæðum. Þeir vegir sem séu í lagi og hafi ekki skolast burt séu lokaðir þar sem tré hafi fallið á þá þvers og kruss. Því sé erfitt að komast áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×