Skoðun

Endurskoðun varnarmála

Jón Gunnarsson skrifar
Þá eru blessaðir Frakkarnir komnir. Ég hef sofið ágætlega þrátt fyrir að hér hafi ekki verið her síðan Kaninn fór enda aðsteðjandi hernaðarógn ekki fyrirliggjandi í okkar heimshluta.

Rússagrýlan er löngu dauð og engar forsendur til þess að endurlífga hana. Þess vegna fór nú m.a. Bandaríkjaher héðan og gengið var frá varnarsamningi milli þjóðanna ef aðstæður breytast. Við erum líka vel varin með aðild okkar að Nató þar sem árás á eitt ríki er árás á þau öll.

Almenn sátt er um aðild okkar að Nató og mín skoðun er að við eigum að efla starf okkar innan bandalagsins á þeim forsendum sem settar voru við inngönguna á sínum tíma, þ.e. að við erum herlaus bandalagsþjóð.

Við brottför bandaríkjahers skapaðist ákveðið tómarúm og hlutirnir gerðust hratt.

Það var við þær aðstæður sem ákveðið var að fara þess á leit að bandalagsþjóðir Nató tæku að sér tímabundið loftrýmiseftirlit og að íslenska ratsjárkerfið yrði rekið áfram með svipuðum hætti og var. Bandaríkjamenn sem ábyrgir eru fyrir vörnum landsins á ófriðartímum töldu sig reyndar ekki þurfa upplýsingar úr því kerfi til að uppfylla samningsskyldur sínar.

Nú fer fram áhættumat fyrir íslenskt samfélag. Ég er þess viss að niðurstöðurnar verða í samræmi við niðurstöðu sérfræðinga á þessu sviði, eða þær að ekki sé hernaðarógn í okkar heimshluta og ekki líklegt að svo verði næstu mörg árin. Í ljósi þeirra staðreynda eiga íslensk stjórnvöld að endurskoða verkefnaval sitt innan starfsemi Nató. Hundruð milljóna króna kostnaður við takmarkað loftrýmiseftirlit og rekstur Ratsjárstofnunar með þeim hætti sem lagt er á stað með er stefna sem þarf að endurskoða.

Ný varnarmálastofnun á að halda utan um starf okkar innan Nató. Við eigum að setja fjármagn og taka forystu í ákveðnum borgaralegum verkefnum þar sem reynsla okkar og þekking nýtur sín. Borgaraleg starfsemi á vegum varnarbandalagsins hefur aukist mikið og það eru fjölmörg spennandi verkefni þar sem við getum lagt lið svo um munar. Það er miklu skynsamlegri leið fyrir okkur sem herlaus þjóð sem vill vera virkur þáttakandi í stærsta varnarbandalagi heimsins.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×