Innlent

Tugir ráðnir til ráðuneyta án auglýsinga um störfin

Valgerður Sverrisdóttir formaður Framsóknarflokksins segir að margir tugir starfsmanna hafi verið ráðnir til ráðuneytanna án þess að stöður þeirra hafi verið auglýstar eins og lög gera ráð fyrir.

Valgerður fjallar um málið á heimasíðu sinni. Þar segir að henni hafi nýlega borist svar forsætisráðherra við fyrirspurn sinni um fjölda aðstoðarmanna og tímabundnar ráðningar. Einhverra hluta vegna sagði utanríkisráðuneytið pass.

Önnur svör voru hins vegar athyglisverð. Margir tugir starfsmanna hafa hlotið vinnu án þess að auglýst hafi verið. Þeir voru allt upp í það að vera 7 í fjármálaráðuneytinu og 6 í félagsmálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti, að því er segir á heimasíðunni.

Samkvæmt reglum fjármálaráðuneytis um auglýsingar á lausum störfum skal auglýsa laus störf ef þau standa í tvo mánuði eða lengur.

„Augljóst er að hér er í einhverjum tilfella á ferðinni hæpin stjórnsýsla. Þeir tugir einstaklinga sem fengið hafa störf í ráðuneytum án auglýsinga hafa nær allir unnið lengur en í tvo mánuði," segir Valgerður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×