Lífið

Ekki er allt magurt fagurt

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Of grannar? Neytendur verða að svara því með kauphegðun sinni.
Of grannar? Neytendur verða að svara því með kauphegðun sinni. MYND/News.com.au

Deyr fé, deyja frændur eru alþekkt sannindi úr Hávamálum og nú virðist svo komið að hin gullna regla auglýsingabransans um sýningarstúlkur sem líkjast mest gangandi hornsílum sé á hverfanda hveli.

Sú er að minnsta kosti niðurstaða rannsóknar auglýsingasálfræðinga við Háskólann í Queensland í Ástralíu. Það voru Phillippa Diedrichs og samstarfsfólk hennar sem létu gera sjónvarpsauglýsingar fyrir nærfatnað, hársápu og samkvæmisfatnað.

Af hverri auglýsingu voru hins vegar gerðar tvær útgáfur, í annarri auglýsti grannvaxin hnáta sem notaði stærð átta en í hinni útgáfunni ögn holdmeiri valkyrja af stærð tólf. Auglýsingarnar voru svo sýndar 400 ungum konum og þær beðnar að gera upp hug sinn um hvort höfðaði nú meira til kaupgleði þeirra.

Kom þá í ljós að hjá meirihluta þeirra hafði það engin sérstök áhrif hvor stærðin af kvenmanni auglýsti varninginn en áberandi var þó hjá aldurshópnum 18 - 25 ára að hinar breiðvaxnari kveiktu meiri áhuga á vörunni í þeirra huga.

Niðurstaða Diedrichs og félaga er því ótvírætt sú að óhætt sé fyrir auglýsendur að stækka örlítið við sig á þessum síðustu og verstu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.