Innlent

Óljóst hve mikið greiðslur af Audi bifreiðinni hafa hækkað

Páll Magnússon ekur um á Audi Q7. Samsett mynd.
Páll Magnússon ekur um á Audi Q7. Samsett mynd.

Páll Magnússon útvarpsstjóri lækkar í launum um 10-11% samkvæmt þeim niðurskurðartillögum sem RÚV kynnti í dag.

Páll heldur hins vegar glæsilegri Audi Q7 bifreið sem RÚV greiðir fyrir hann, eins og Vísir hefur áður sagt frá. Bíllinn er tekinn á rekstrarleigu hjá SP fjármögnun og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu SP býðst rekstrarleigan í íslenskum krónum eða erlendri myntkörfu sem er gengistryggð. „Ég bara hreinlega veit það ekki," sagði Páll aðspurður um hvort bíllinn væri á myntkörfuláni. Því liggur ekki ljóst fyrir hversu mikið mánaðarlegar greiðslur af bílnum hafa hækkað en þær voru um 200 þúsund krónur í september í fyrra. Páll tók þó skýrt fram í samtali við Vísi í dag að greiðslur af bílnum snerust um ráðstöfun á launakjörum hans en væru ekki viðbót við þau. „Spurningin um bílinn snýst því ekki um laun heldur ráðstöfun á launum," sagði Páll í samtali við Vísi.

Að sögn Páls lækka aðrir æðstu stjórnendur RÚV einnig um 10-11%. Meginþorri starfsmanna lækkar um 6,5-7%, en þeir lægst launuðu lækka ekkert. Gert er ráð fyrir að launalækkunin skili stofnuninni 150 milljóna króna sparnaði á ársgrundvelli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×