Íslenski boltinn

Þolinmæðin skilaði stigum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Kristján Guðmundsson var ánægður með sína menn í gær.
Kristján Guðmundsson var ánægður með sína menn í gær. MYND/Anton

Keflavík náði fimm stiga forystu á toppi Landsbankadeildar karla með því að leggja Grindavík, 3-0, á heimavelli sínum. Grindvíkingar voru komnir til Keflavíkur til að verja stigið og sýndi Keflavík mikla þolinmæði sem skilaði að lokum sigrinum.

„Það skipti miklu máli að ná inn markinu til að losa þá aðeins úr sínum varnar­pakka. Við náðum ekki að hreyfa boltann nógu hratt í fyrri hálfleik og komumst ekki nógu oft upp í hornin en það tókst aðeins betur í seinni hálfleik og það var flott að við náðum að skora eftir innkast," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.

„Mér fannst við vera mjög þolinmóðir og einbeittir að ná markmiðum okkar í þessum leik. Með aukinni einbeitingu inni á vellinum kemur þessi þolinmæði. Leikmenn eru mun einbeittari að ná því markmiði, sem hver og einn og liðið í heild hefur, en áður."

Keflvíkingar hafa forðast allt tal um titilbaráttu eins og heitan eldinn en lið á toppnum þegar fjórar umferðir eru eftir getur það ekki lengur.

„Við endurskoðun markmiðin núna í þessari viku. Við erum með nokkur markmið og það hefur tekist ágætlega að ná þeim í síðustu átta leikjum. Nú skoðum við stöðuna eftir þessa umferð," sagði Kristján í leikslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×