Erlent

Mugabe ekki á fund Afríkuríkja

Óli Tynes skrifar
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe.
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe.

Robert Mugabe, forseti Zimbabwe mun ekki taka þátt í fund Afríkuríkja um kosningaklúðrið í landi sínu.

Fundurinn verður haldinn í Lusaka í Zambíu á morgun. Forseti Sambíu boðaði til fundarins en hann er jafnframt forseti Þróunarstofnunar ríkja í sunnanverðri Afríku. Fjórtán Afríkuríki eiga aðild að þeirri stofnun.

Leiðtogar Afríkuríkja og raunar fleiri hafa áhyggjur af því að ekki hafa verið birt útslit forsetakosninga sem haldnar voru í Zimbabwe fyrir bráðum hálfum mánuði.

Upplýst hefur verið að Morgan Tsvangirai, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar hafi fengið fleiri atkvæði en Mugabe.

Mugabe vill ekki una því og vill láta telja atkvæðin á nýjan leik.

Upplýsingaráðherra Zimbabwe segir að fundurinn í Lusaka hafi verið boðaður án samráðs við forsetann og því muni hann ekki mæta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×