Brasilíska undrabarnið Alexandre Pato hjá AC Milan spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir brasilíska landsliðið í gær og kórónaði frumraunina með því að skora sigurmarkið í æfingaleik gegn Svíum.
Pato spilaði 30 mínútur í leiknum, sýndi lipra takta og skoraði sigurmarkið í 1-0 sigri Brassa. Hann sagðist stoltur af frumrauninni og var fullur þakklætis í garð foreldra sinna.
"Foreldrar mínir hringdu í mig grátandi eftir leikinn og ég var sjálfur djúpt snortinn því ég á þeim allt að þakka. Þau gáfu mér tækifæri á að mennta mig og hafa stutt við bakið á mér. Það er ekkert betra í lífinu en að gera foreldra sína stolta," sagði Pato.
Fjölmiðlar í Brasilíu misstu sannarlega ekki af frumraun hins 18 ára gamla Pato og slógu upp fyrirsögnum þar sem honum var líkt við goðsagnirnar Pele, Zico og Rivelino.