Erlent

Farðu í rassgat, hreytti Frakklandsforseti út úr sér

Óli Tynes skrifar
Nicolas Sarkozy á betri stundu en hann átti á landbúnaðarsýningunni.
Nicolas Sarkozy á betri stundu en hann átti á landbúnaðarsýningunni.

Enn einusinni tekur franska þjóðin andköf yfir forseta sínum. Nicolas Sarkozy missti stjórn á skapi sínu þegar hann heimsótti landbúnaðarsýningu í París um helgina.

Ástæðan fyrir skapbresti ráðherrans var sú að maður sem hann hitti þar neitaði að taka í höndina á honum.

"Þú saurgar mig þegar þú snertir mig," sagði hinn ókunnugi dóni. En það stóð ekki á svari hjá forsætisráðherranum; "Hypjaðu þig þá, pauvre con," hreytti hann út úr sér.

Lauslega þýtt má segja að Sarkozy hafi sagt manninum að fara í rassgat. Í beinni þýðingu er hinsvegar verið að vísa í kynfæri kvenna. Slík ummæli gætu valdið slagsmálum í vissum hverfum í París.

Stjórnarandstæðingar og fjölmiðlar urðu angdofa af hneykslan yfir klúryrðum forsetans. Sögðu að það sæmdi ekki manni í hans stöðu að viðhafa svona orðbragð.

Stuðningsmenn forsetans komu honum hinsvegar til varnar. Til dæmis Michael Barnier, landbúnaðarráðherra. "Hann talaði við hann maður við mann," sagði Barnier. "Forsetinn er beinskeyttur maður og nútímalegur í svörum og hegðun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×