Tónlist

Hátt í tvö hundruð flytjendur

Hljómsveitin Amiina hefur bæst við dagskrá Iceland Airwaves sem verður haldin eftir tvær vikur.
Hljómsveitin Amiina hefur bæst við dagskrá Iceland Airwaves sem verður haldin eftir tvær vikur.

Hátt í tvö hundruð flytjendur hafa verið bókaðir á Iceland Airwaves-tónlistarhátíðina sem verður haldin í Reykjavík eftir tvær vikur. 117 innlendir flytjendur hafa skráð sig til leiks en 49 erlendir.

Á meðal þeirra sem hafa bæst í hópinn að undanförnu er Gudrun Gut, stofnmeðlimur þýsku hljómsveitarinnar Einstürzende Neubauten. Síðar meir varð hún meðlimur í Mania og lista-rokksveitinni Malaria! sem vakti mikla athygli í byrjun níunda áratugarins.

Landi Gudrun Gut, Thomas Fehlman, kemur einnig á Airwaves. Hann hefur átt langan feril og er þekktastur fyrir áralangt samstarf sitt við hljómsveitina Orb. Aðrir nýir sem hafa boðað komu sína eru Amiina, Ben Frost, Nico Muhly, Valgeir Sigurðsson, Kasper Björke, Gavin Portland, XXX Rottweiler, Matias Tellez frá Noregi og Morðingjarnir.

Áður höfðu sveitir á borð við Boys in a Band, CSS, The Young Knives, Vampire Weekend, FM Belfast, Sprengjuhöllin og Dr. Spock staðfest þátttöku sína.

Iceland Airwaves verður haldin á eftir­töldum stöðum: Listasafni Reykjavíkur, Nasa, Tunglinu, Hressó, Organ, 22 og Iðnó. Einnig verður svokölluð „off-venue" dagskrá á fjölmörgum stöðum í miðbænum. Miðasala fer fram á midi.is og kostar armbandið 8.900 krónur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×