Innlent

Reðursafnið öðlast heimsfrægð

Óli Tynes skrifar
Á góðri stundu í Reðursafninu á Húsavík.
Á góðri stundu í Reðursafninu á Húsavík.

Orðstír Reðursafnsins á Húsavík berst víða. Í dag er um það löng grein á Reuters fréttastofunni og viðtal við Sigurð Hjartarson, forstöðumann.

Í greininni er þess getið að 261 reður úr 90 tegundum sé til sýnis í safninu. Sá stærsti er úr búrhval. Hann er 1.7 metra langur og vegur 70 kíló.

Sá minnsti er úr hamstri, tveir millimetrar. Hann er skoðaður í gegnum stækkunargler.

Bob Strong fréttamaður Reuters og Sigurður ræða saman á léttum nótum. Greinilegt að Sigurður tekur safn sitt mátulega alvarlega.

Talið berst auðvitað að því að Homo Sapiens eigi engan fulltrúa á safninu. Sigurður segir að það standi til bóta, því þrír menn hafi lofað safninu stolti sínu.

Það eru Bandaríkjamaður, Breti og Íslendingur, búsettur á Akureyri.

Sigurður getur þess að Íslendingurinn hafi verið mikill kvennabósi á yngri árum og vonist til að framlag hans færi honum ævarandi frægð.

Hégómagirni hans verður þó hugsanlega til þess að ekkert verði af gjöfinni.

Akureyringurinn er orðinn 93 ára gamall og hefur áhyggjur af því að hann sé allur að skreppa saman með aldrinum.

Því kunni svo að fara að reðurinn verði ekki verðugt tákn um karlmennsku hans, þegar að því kemur að afhenda gjöfina.

Sigurður segir að 60 prósent gesta hans séu konur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×