Innlent

Sendir skýr skilaboð til umheimsins

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að þjóðnýta Glitni sendir skýr skilaboð til umheimsins og tíðindin eru söguleg, segir Ólafur Ísleifsson, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík.

„Stjórnvöld hafa með þessum hætti sýnt það í verki að þau standa að baki fjármálastofnunum hér og hafa tekið á málum með áþekkum hætti og gerst hefur í nágrannalöndunum. Þetta eru auðvitað mjög sterk skilaboð til umheimsins," segir Ólafur.

Þótt banki sé sterkur og standist ströng álagspróf Fjármálaeftirlitsins þá getur eitthvað látið undan í svona ástandi á alþjóðamörkuðum, segir Ólafur.

Aðspurður hvort þetta eigi eftir að styrkja íslenska fjármálakerfið segir Ólafur að önnur viðbrögð hefðu getað leitt af sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Hann vill ekkert um það segja hvort fleiri fjármálastofnanir verði þjóðnýttar.

Þá segir hann um viðbrögð stjórnvalda að það hafi ekki verið um aðra kosti að ræða í þeirri stöðu sem upp hafi komið hjá þessum banka. „Þetta eru náttúrlega mjög söguleg tíðindi að af hálfu hins opinbera þurfi að stíga fram með þessum hætti," segir Ólafur.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×