Innlent

18 metra hár snjóvarnargarður á Ísafirði

Breyting á aðalskipulagi Ísafjarðar hefur verið auglýst en svæðið sem skipulagsbreytingin tekur til er í brattri hlíð undir fjallinu Kubba á Ísafirði. Fyrirhugað er að byggja snjóflóðavarnargarð ofan við byggðina og upptakastoðvirki í Bröttuhlíð.

Hæð varnagarðsins er áætluð 12-18 metrar og lengd hans um 260 metrar. Neðan við varnarmannvirkin er íbúðarhverfi með einbýlis-, rað- og fjölbýlishúsum. Gert er ráð fyrir vegslóða upp Hafrafellsháls að upptakastoðvirkjum. Frá þessu er sagt í Bæjarins besta á Ísafirði.

Tillagan gerir ráð fyrir að auka öryggi íbúa með tilliti til snjóflóða. Samkvæmt núgildandi aðalskipulagi sem gildir til ársins 2009 er ekki gert ráð fyrir mannvirkjum til snjóflóðavarna á þessu svæði og er meirihluti svæðisins opið óbyggt svæði.

Skipulagið gerir hins vegar ráð fyrir að ofan við íbúðarbyggðina í Holtahverfi komi atvinnusvæði og aðkoma að því verði um veg sem komi í framhaldi af núverandi Holtabraut og ofan við fjölbýlishúsin við Stórholt, þ.e. á því svæði sem ráðgert er að reisa varnargarðinn.

Þessu verður breytt og verður fyrirhugaður vegur felldur út af skipulaginu ásamt áður fyrirhuguðu athafnasvæði. Í stað þess kemur að hluta til svæði merkt opið svæði til sérstakra nota ásamt snjóflóðagarðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×