Sport

Helgi og Tinna í 16-liða úrslit

Eiiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslenska landsliðið í badminton. Helgi er í efri röð, annar frá vinstri, og Tinna lengst til hægri í neðri röðinni.
Íslenska landsliðið í badminton. Helgi er í efri röð, annar frá vinstri, og Tinna lengst til hægri í neðri röðinni.

Helgi Jóhannesson og Tinna Helgadóttir náðu í dag þeim frábæra árangri að komast í 16-liða úrslit í tvenndarkeppni á Evrópumótinu í badminton.

Helgi og Tinna unnu í morgun öruggan 2-0 sigur á eistnesku pari og endurtóku svo leikinn nú eftir hádegi með 2-0 sigri á pari frá Póllandi.

Þau léku gegn þeim Adam Cwalina og Malgorzata Kurdelska og unnu fyrstu lotuna í bráðabana, 25-23. Seinni lotuna unnu Helgi og Tinna svo örugglega, 21-9.

Síðar í dag kemur í ljós hvort þau mæti pari frá Sviss eða bresku pari. 16-liða úrslitin fara fram á morgun.

Á styrkleikalista Alþjóða badmintonsambandsins er pólska parið í 60. sæti. Tinna og Helgi eru ekki á þeim lista en áður hefur Tinna keppt með Magnúsi Inga Helgasyni. Þau eru í 191. sæti á listanum.

Breska parið sem Tinna og Helgi geta mætt er gríðarlega sterkt og í 19. sæti heimslistans. Samkvæmt öllu ættu Bretarnir að vinna svissneska parið sem er í 329. sæti heimslistans.

Dagurinn hefur verið einkar góður fyrir Tinnu en auk þess að vinna tvo sigra í tvenndarleik í dag komst hún einnig áfram í aðra umferð í einliðaleik kvenna eftir glæsilegan sigur á Lucia Tavera frá Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×