Innlent

Skúrinn var verkfæra- og kaffiskúr - Áverkar ungmennanna alvarlegir

Vinnuskúrinn í Grundargerði í Reykjavík, þar sem alvarleg slys urðu á ungmennum eftir gassprengingu í gærkvöldi, var verkfæra- og kaffiskúr fyrir starfsmenn Garðyrkjunnar í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu umhverfis- og samgöngusviðs borgarinnar.

Þar kemur einnig fram að skúrnum hafi verið lokað fyrir veturinn og að engin eldfim efni né gaskútar hafi verið geymd þar. Tilraun var gerð um liðna helgi til að brjótast inn í skúrinn og var húsasmiður því fenginn í kjölfarið á mánudagsmorgni til að gera við skemmdirnar.

Fram hefur komið að sex ungmenni hafi verið flutt á sjúkrahús eftir sprenginguna og senda starfsmenn borgarinnar þeim og fjölskyldum þeirra allar sínar bestu óskir um bata.

Ungmennin liggja á gjörgæsludeild Landspítalans með brunasár og aðra áverka eftir sprenginguna. Sérfræðingur á gjörgæsludeild sagði í samtali við Stöð 2 nú rétt fyrir hádegi að öll sex ungmennin væru á gjörgæsludeild en hann bjóst við að þrjú þeirra yrðu útskrifuð á aðra deild síðar í dag. Hann sagði áverka unglinganna alvarlega.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×