Erlent

Olían hlýðir engum markaðslögmálum

Óli Tynes skrifar
Chakib Khelil, forseti Opec
Chakib Khelil, forseti Opec

Chakib Khelil forseti OPEC sagði á blaðamannafundi á Indónesíu að eðlilegast sé að framboð og eftirspurn stjórni markaðsverði. Því sé ekki til að dreifa með olíuna. Verðið á henni sé orðið alltof hátt og það skaði bæði framleiðendur og neytendur.

Olíuverð fór yfir 147 dollara fyrir tunnuna hinn ellefta júlí síðastliðinn. Það gerðist eftir að dollarinn veiktist mjög. Khalil telur að eðlilegt verð til lengri tíma litið gæti verið 70-80 dollarar fyrir tunnuna.

Bloomberg telur að slíkt verð myndi að stórum hluta leysa þann efnahagsvanda sem nú blasir við heiminum.

Forsendur fyrir slíku verði eru taldar þær að bandaríkjadalur styrkist og að meiri stöðugleiki náist í Miðausturlöndum, sérstaklega gagnvart Íran.

Undan farin misseri hefur olían ekki farið eftir nokkrum eðlilegum markaðslögmálum. Jafn oft og ekki er verðið talað upp með allskonar fáránlegum getgátum og spám.

Ein skýring á háa verðinu nú er gríðarlega aukin eftirspurn eftir olíu í Asíu. Einhverntíma í framtíðinni. Þessi eftirspurn er alls ekki fyrir hendi nú.

Og það er ekkert tillit tekið til þess að til mótvægis við þá auknu eftirspurn eru sífellt að finnast fleiri olíulindir. Í Kanada er til dæmis talið að séu margfallt meiri olíubirgðir í jörðu en í sjálfri Saudi-Arabíu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×