Innlent

Mistök að heimila Íbúðalánasjóði að veita 90 prósenta lán

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að það hafi verið mistök hjá fyrri ríkisstjórn að heimila Íbúðalánasjóði að veita allt að 90 prósenta lán til íbúðarkaupa. Íslendingar væru að súpa seyðið af þeim mistökum um þessar mundir.

Forsætisráðherra sagði í Íslandi í dag í gærkvöldi að mikill uppgangur og umsvif hefðu verið á fasteignamarkaði undanfarin ár. Það hlyti að koma að því að því skeiði myndi ljúka.

Ráðherra segir að sé ekki skrýtið að nú eigi sér stað aðlögun á fasteignamarkaðnum og einhverjir lendi í erfiðleikum, bæði verktakar með óseldar eignir og einstaklingar sem eru með yfirveðsettar eignir en þurfi að selja. En fyrrverandi ríkisstjórn tók líka þátt í að auka þensluna á fasteignamarkaði þegar Íbúðalánasjóði var heimilað að veita allt að 90 prósenta lán til íbúðakaupa á sínum tíma.

Forsætisráðherra sagði ekki standa til að leggja íbúðalánasjóð niður en það væri verið að vinna að breytingum á honum þannig að starfsemi hans miðaðist meira við félagslegt hlutverk hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×