Fótbolti

Veigar Páll skoraði í sigri Stabæk

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson var á skotskónum fyrir Stabæk í dag.
Veigar Páll Gunnarsson var á skotskónum fyrir Stabæk í dag. Mynd/Scanpix
Stabæk vann í dag sigur á Noregsmeisturum Brann, 3-0, og kom sér þar með á topp norsku úrvalsdeildarinnar.

Veigar Páll Gunnarsson skoraði fyrsta markið úr víti strax á níundu mínútu leiksins eftir að Kristján Örn Sigurðsson var dæmdur brotlegur.

Daniel Nannskog bætti við öðru marki á 58. mínútu og Somen Tchoyi því þriðja skömmu síðar.

Kristján Örn var einn Íslendinganna hjá Brann í byrjunarliðinu en Veigari Páli var skipt út af á lokamínútunum.

Gylfi Einarsson kom inn á í liði Brann á 66. mínútu en Ólafur Örn Bjarnason sat allan leikinn á varamannabekk liðsins. Ármann Smári Björnsson var ekki í hópnum.

Brann er í níunda sæti deildarinnar með fjögur stig en þetta var fyrsti leikurinn í fjórðu umferð deildarinnar.

Stabæk er enn án taps en liðið hefur unnið tvo leiki og gert tvö jafntefli. Liðið er því með átta stig eftir fjóra leiki en Lyn, Vålerenga, Viking og Fredrikstad eru öll með sex stig eftir þrjá leiki og því ólíklegt að Stabæk haldi toppsætinu lengi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×