Erlent

Fann 2.500 ára gamlan gullbikar undir rúminu

John Webber sjötugur Englendingur fann nýlega 2.500 ára gamlan gullbikar sem verið hafði undir rúmi hans í ein 60 ár. Bikarinn fékk Webber að gjöf frá afa sínum sem var brotajárnsali.

Bikarinn kom í ljós er Webber var að flytja frá heimili sínu í Somerset. Reiknað er með að verðmæti bikarsins nemi um 15 milljónum kr. Hann er 14 sm á hæð og skartar tveimur kvennandlitum með slönguhár í kringum sig.

Talið er að uppruna bikarsins sé að finna í Miðausturlöndum eða Afríku og að hann hafi verið smíðaður þrem til fjórum öldum fyrir Krist. Aldurgreining sem sérfræðingar frá Breska þjóðminjasafninu gerðu benda til að hann sé a.m.k. þetta gamall.

Webber segir að hann hafi enga hugmynd um hvernig bikarinn komst í hendur afa síns. "Ég man hinsvegar að ég notaði hann sem leikfang þegar ég var krakki en setti hann svo í pappakassa og gleymdi honum," segir hann.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×