Viðskipti erlent

Fjárfestingasjóður kaupir Wyndeham prentsmiðjuna

Afskiptum Íslendinga af Wyndeham prentsmiðjunni er endanlega lokið en fjárfestingasjóðurinn Walstead Investments hefur fest kaup á prentsmiðjunni að mestu með yfirtöku á skuldum.

Samkvæmt frétt um málið í blaðinu Financial Times segir að Landsbankinn sem átti orðið Wyndeham hafi ekki getað haldið rekstrinum gangandi eftir að bankinn komst í þrot í haust. Stóð því fyrir dyrum að láta prentsmiðjuna fara í gjaldþrot.

Walstead Investments munu borga 17 milljónir punda fyrir Wyndeham og taka yfir 95 milljónir punda, eða sem nemur um 16 miljörðum kr. af skuldum prentsmiðjunnar.

Wyndeham voru ein af kaupum Gunnars Smára Egilssonar í útrás félagsins Dagsbrúnar árið 2006. Prentsmiðjan komst síðar í eigu 365 sem tapaði miklu á prenstsmiðjunni en hún var afskrifuð að fullu í fyrra.

Landsbankinn eignaðist Wyndeham í kjölfar þessa þar sem bankinn hafði lánað fyrir kaupum og rekstri og átti helstu veðin í prentsmiðjunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×