Innlent

Þungt haldinn á gjörgæslu eftir bílslys á Akranesi

Mynd: Skessuhorn.
Mynd: Skessuhorn.

Bíl var ekið á miklum hraða á hús við Vesturgötu á Akranesi rétt fyrir klukkan þrjú í dag. Tveir voru í bílnum. Þeir voru báðir fluttir á sjúkrahúsið á Akranesi en að sögn lögreglu voru þeir báðir meðvitundarlausir þegar að var komið og meiðsl þeirra talin alvarleg.

Annar mannanna var fluttur til Reykjavíkur og liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild Landsspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Hinn var fluttur á sjúkrahús á Akranes, er með meðvitund og líðan hans er ágæt eftir atvikum. Mennirnir eru báðir á átjánda ári.

Á Skessuhorni kemur fram að bílnum hafi verið ekið á miklum hraða upp Vesturgötu en þar hafi ökumaður misst stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði á húsvegg. Lögregla segir of snemmt að segja til um hvað olli því að ökumaðurinn missti stjórn á bílnum.

Höggið var svo þungt að hluti veggjar og gluggi á jarðhæð hússins þeyttust inn. Enginn var í þessum hluta hússins þegar ákeyrslan var, en þar er svefnherbergi. Bíllinn er gjörónýtur. Vitni sem Skessuhorn ræddi við og statt var í nærliggjandi götu sagði að höggið hafi verið svo mikið að hann hélt að sprenging hafi orðið í húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×