Lífið

Aldrei fleiri tilnefningar til Edduverðlauna

Baltasar Kormákur leikstjóri.
Baltasar Kormákur leikstjóri.

Brúðguminn hefur að öllum líkindum sett met í fjölda tilnefninga til Edduverðlauna en myndin hlaut 14 tilnefningar. „Ég man ekki eftir að það hafi svo margar tilnefningar verið á eina mynd," segir Baltasar Kormákur, leikstjóri myndarinnar, þegar Vísir spyr hann út í málið. Hann segir að kvikmyndin Hafið hafi hlotið 12 verðlaun en bendir á að það ár hafi ekki verið eins stórt í kvikmyndagerð og núna. „Það er óvenju mikið af myndum í ár og svo kemur allt sjónvarpsefnið inn í allar tilnefningarnar nema Besta myndin," segir Baltasar.

Baltasar segir að það gangi mjög vel að kynna myndina erlendis og búið sé að ganga frá sölu á henni til Ameríku. Baltasar segir að það taki alltaf lengri tíma að kynna myndir á öðrum tungumálum en ensku, sem komi frá litlum framleiðendum. „Mýrin var sýnd í Frakklandi og Englandi í sumar, tveimur árum eftir að hún er gerð," segir Baltasar.

Baltasar segist vera að vinna að nýrri mynd sem heiti Inhale, sem var tekin upp í Nýju Mexíkó í sumar. Þá sé hann jafnframt að vinna að stórri Víkingamynd sem sé gerð í samvinnu við bandaríska aðila og verði tekin upp að langstærstum hluta á Íslandi.

Baltasar segist að sjálfsögðu finna fyrir kreppunni. Hann hafi hins vegar ekki verið í áhættufjárfestingum og því snerti kreppan hann ekkert sérstaklega. Baltasar vonast til þess að efnahagsástandið hér heima verði ekki til þess að þeir sem séu í kvikmyndaframleiðslu brenni sig illa. Þá vonast hann jafnframt til þess að Kvikmyndasjóður verði ekki skorinn niður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.